Haustönnin fer vel af stað

Þrátt fyrir ákveðnar takmarkanir vegna smitvarna fer haustönnin vel af stað í VA. Með talverðu skipulagi tekst að kenna næstum alla áfanga til fulls í staðnámi sem er það sem mestu skiptir.

Skipta þarf þó í hólf í hádegismat og hefðbundnar frímínútur eru ekki til staðar þar sem koma þarf í veg fyrir hópamyndun. Ekki eru heldur leyfðar heimsóknir á heimavist skólans enn sem komið er.

Allt skipulag skólans fyrir haustönnina miðast við að hægt sé að skilja alveg á milli nemenda eftir námsbrautum ef til þess kæmi að sóttvarnaráðstafanir settu okkur frekari hömlur. Við vonum að til þess komi ekki – en að sama skapi verðum við tilbúin er þess þarf.

Nemendur og starfsfólk hafa staðið sig gríðarlega vel í þessum sérstöku aðstæðum og allir leggja sitt af mörkum til að láta hlutina ganga upp. Frá degi til dags þarf að móta hinar ýmsu lausnir og því hefur sannarlega reynt á aðlögunarhæfni og umburðarlyndi allra sem starfa og nema í skólanum. Smám saman erum við þó að ná nokkuð góðum takti.

Alls staðar þar sem það er mögulegt er skipulagið miðað við að halda a.m.k. eins meters fjarlægð á milli einstaklinga og því grímunotkun takmörkuð. Í einstaka áföngum er þó ekki hægt að komast hjá grímunotkun og á það sérstaklega við þegar verið er að leiðbeina um handbragð og notkun tækja í verklegum áföngum.

Samstillt förum við í gegnum þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir því saman getum við þetta.

Hér má sjá sóttvarnareglur VA en allir nemendur skólans fengu fræðslu um sóttvarnaráðstafanir á fyrsta skóladegi.