Marta Guðlaug hlutskörpust í Bebras tölvuáskoruninni

Nemendur í forritunaráfanga á nýsköpunar- og tæknibraut í Verkmenntaskóla Austurlands (VA) tóku þátt í Bebras tölvuáskoruninni 2018 sem fór fram 12. – 16. nóvember sl.

Marta Guðlaug Svavarsdóttir, nemandi við VA, varð hlutskörpust íslenskra þátttakenda en hún hlaut samtals 143 stig í áskoruninni.

Bebras áskorunin kannar rökhugsun og tölvufærni með því að láta þátttakendur leysa krefjandi verkefni. Áskorunin er keyrð samhliða í flestum löndum heimsins í nóvember ár hvert.  Alls tóku 1.357 nemendur á Íslandi þátt í áskoruninni og komu þeir úr 24 skólum á Íslandi.

Þuríður Ragnheiður Sigurjónsdóttir kennir forritun í VA ásamt kennslu rafiðngreina en hún er rafmagnstæknifræðingur að mennt. Þuríður segir forritunarnám mikilvægt og þá ,,ekki einungis til að læra forritun heldur einnig til að eflast í rökhugsun og lausnamiðun. Forritun hjálpi til við þetta en það geri fleiri áfangar eins og stærðfræði. Gott sé að læra grunn í forritun til að vera kunnugur því hvernig forritun sé byggð upp og það geti auðveldað nám við forritunarmál í framtíðinni.“

Á nýsköpunar- og tæknbrautinni í VA eru kenndir tveir forritunaráfangar, hvor um sig 5 f-einingar. Kennsla á brautinni hófst haustið 2016 og var forritun kennd í fyrsta skipti sl. haust.