Afhending sveinsbréfa

Á dögunum voru afhent sveinsbréf í húsasmíði og vélvirkjun við hátíðlega athöfn á Hótel Hildibrand í Neskaupstað. Þetta var í fyrsta skipti sem afhending sveinsbréfa fer fram á Austurlandi. Alls voru 13 nemendur sem luku sveinsprófi í húsasmíði og 6 sem luku sveinsprófi í vélvirkjun frá VA. 

12 þeirra nemenda sem fengu afhent sveinsbréf í húsasmíði luku prófinu í sumar en þá fór prófið fram í húsnæði VA.

Meðal þeirra sem fengu afhent sveinsbréf voru þau Barbara Kresfelder og synir hennar þeir Kári og Týr Kresfelder Haraldssynir. Fyrir þremur árum var fjallað um fjölskylduna í Landanum og má sjá innslagið þaðan hér.

Hulda Birna Kjærnested Baldursdóttir og Marino Stefánsson afhentu sveinsbréfin fyrir hönd Iðunnar en Marino var prófdómari í sveinsprófunum og Hulda Birna er varaformaður stjórnar Iðunnar og verkefnastjóri mennta- og mannauðsmála hjá Samtökum Iðnaðarins.

Við óskum sveinunum okkar innilega til hamingju með áfangann!